Raforkuverkfræði
Hvað læri ég?
Meistaranám í raforkuverkfræði er framhald BSc-náms í raforkuverkfræði.
Verkfræði er í heildina fimm ára nám. Nemendur öðlast löggilt starfsheiti sem verkfræðingar eftir bæði BSc- og MSc-nám.
Tvöföld meistaragráða frá HR og Aalto
Meistaranemar í raforkuverkfræði geta lokið tvíþættri háskólagráðu á meistarastigi í raforkuverkfræði í samstarfi við hinn virta tækniháskóla Aalto í Finnlandi.
Hvernig læri ég?
Á fyrsta ári meistaranáms ljúka nemendur námskeiðum en á síðara ári færa nemendur sig í átt að rannsóknum á sínu áhugasviði.
Meistaraverkefni
Nemendur geta valið um 30 ECTS eða 60 ECTS meistaraverkefni.
- 60 ECTS lokaverkefni: annað árið er alfarið tileinkað verkefninu.
- 30 ECTS lokaverkefni: nemendur ljúka meistaraverkefni en geta jafnframt lokið einingum með t.d. valnámskeiðum, skiptinámi eða starfsnámi.
Nemendur vinna með vísindamönnum og leiðbeinendum innan háskólans og oft er átt samstarf við fyrirtæki eða aðila utan HR. Slík tenging við atvinnulífið styrkir stöðu nemenda við útskrift verulega. Í sumum tilvikum geta nemendur, í samstarfi við leiðbeinendur sína, sótt um styrki til að vinna verkefnið.
Meistaranemar geta sótt um að ljúka starfsnámi á öðru ári, á vorönn. Starfsnámið getur verið allt að 12 ECTS.
Starfsnám
Markmið með starfsnámi er að auka þekkingu nemenda á því sviði sem þeir stunda nám á og búa þá undir störf að námi loknu. Verkfræðideild gengur úr skugga um að nemendur sem fara í starfsnám vinni verkefni sem eru krefjandi, áhugaverð og á þeirra áhugasviði.
Starfsnámið hefur mælst mjög vel fyrir hjá nemendum og mörg meistaraverkefni hafa orðið til út frá verkefnum í starfsnámi.
Skyldunámskeið fyrir alla:
Gagnanám og vitvélar
Eitt skyldunámskeið er fyrir alla meistaranema í verkfræði, sama á hvaða námsleið þeir eru: Gagnanám og vitvélar (e. data mining and machine learning). Þar eru viðfangsefnin meðal annarra tauganet, ákvarðanatré og mynsturgreining.
Það er mat verkfræðideildar HR að kunnátta á þessu sviði sé nauðsynleg fyrir verkfræðinga dagsins í dag og ekki síst verkfræðinga framtíðarinnar.
Aðferðarfræði rannsókna
Samfélagið þarfnast fólks sem getur hugsað gagnrýnt, sem getur greint flóknar aðstæður og getur miðlað niðurstöðum sínum á áhrifaríkan hátt. Þetta getur falið í sér mörg verkefni, þar á meðal að leita að og meta gildi vísindarita og annars konar skjala.
Aðferðafræði rannsókna undirbýr nemendur fyrir að takast á við upplýsingaöflun, greiningu og skýrslugerð sem krafist er fyrir öll önnur námskeið.
Skiptinám
Að læra við háskóla í öðru landi er ævintýri, getur víkkað sjóndeildarhringinn og jafnvel staðfest fyrir nemendum hverju þeir vilja einbeita sér að í sínu starfi eftir útskrift. Nemendur í MSc námi geta sótt um skiptinám í eina eða tvær annir en alþjóðaskrifstofan veitir frekari upplýsingar um hvert hægt er að fara í skiptinám.
Aðstoðarkennsla
Aðstoðarkennsla er auglýst sérstaklega og geta nemendur í MSc námi eða á 3. ári í BSc námi sótt um. Ýmist er um að ræða kennslu í dæmatímum ásamt yfirferð dæma, yfirferð heimaverkefna eingöngu eða aðstoð við verklegar æfingar. Nemendur sem hafa sýnt góðan árangur í námi og hafa áhuga á að spreyta sig við aðstoðarkennslu eru hvattir til þess að sækja um. Nánari upplýsingar hjá skrifstofu verkfræðideildar, vfd@ru.is
Að námi loknu
BSc- og MSc-gráða í verkfræði frá HR tryggir nemendum góðan undirbúning til að taka næsta skref í átt að framtíðarmarkmiðum sínum. Hvort heldur sem þau eru frekara nám, stofnun fyrirtækis eða starf hér heima eða erlendis.
Við útskrift eiga nemendur að vera færir um samstarf og hafa tamið sér góð og öguð vinnubrögð, sem samræmast bestu og nýjustu aðferðum hverju sinni, ásamt fræðilegri þekkingu og hæfni á sínu sviði. Verkfræðinemar við HR fá, frá fyrstu önn í BSC-náminu, þjálfun sem gerir þá reiðubúna að taka þátt í verkefnum á vinnustað strax fyrsta vinnudaginn.
Skipulag náms
Námsáætlun er gerð í samvinnu við leiðbeinanda.
Valnámskeið
Valnámskeiðum er ætlað að veita sérhæfðan undirbúning fyrir meistaraverkefni með því að styðja við rannsóknarefnið. Leiðbeinandi veitir ráðgjöf og þarf að samþykkja námsáætlun nemandans.
Eftirfarandi er listi yfir ráðlögð valnámskeið í MSc raforkuverkfræði, mörg þeirra eru kennd við Íslenska orkuskólann (Iceland School of Energy). Auk þess geta nemendur tekið valnámskeið í verkfræði eða tengdum greinum, eða úr öðrum deildum, í samráði við leiðbeinanda og að uppfylltum reglum um meistaranám við verkfræðideild HR.
Námskeiðslýsingar eru að finna í kennsluskrá.
Ertu með spurningar um námið?
Aðstaða
Þjónusta og góður aðbúnaður
Kennsla í staðarlotum fer fram í háskólabyggingu HR. Þar er lesaðstaða og bókasafn, aðstaða til verklegrar kennslu, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur.
Verkleg kennsla
Í HR er áhersla lögð á verkkunnáttu og þjálfun ásamt fræðilegri undirstöðu. Því er aðstaða til verklegrar kennslu til fyrirmyndar. Nemendur í rafmagnsverkfræði hafa aðgang að rafeindatæknistofu. Auk þess hafa þeir aðgang að efnafræðistofu og í sumum tilvikum aðstöðu í kjallara háskólabyggingarinnar fyrir stærri verkefni. Vísindamenn við véla- og rafmagnssvið eru jafnframt með rannsóknarstofur þar sem framkvæmdar eru tilraunir.
Orkutæknistofa
Í orkutæknistofunni er safn af tilraunum er lúta að orku og orkunýtingu. Nemendur í námskeiðum á borð við varmafræði, varmaflutningsfræði, straumfræði og tengdum greinum sækja verklegan hluta námsins í þessa stofu og framkvæma tilraunir er tengjast þeim viðfangsefnum. Orkutæknistofan býður upp á góða aðstöðu fyrir rannsóknaverkefni og lokaverkefni nemenda í grunnnámi og meistaranámi í verkfræði og tæknifræði. Formula Student lið Háskólans í Reykjavík hefur aðsetur í stofunni um þessar mundir.
Rafeindatæknistofa
Í rafeindatæknistofu er unnið að verkefnum og tilraunum á sviði rafeindatækni, rafmagnsfræði, raforku, stýringum og sjálfvirkni. Í stofunni er fjölbreytt safn af verklegum tilraunum er tengjast námsefni á þessum sviðum. Stofan býður jafnframt upp á aðsetur fyrir nemendur sem vinna að stærri verkefnum eða lokaverkefnum í grunnnámi eða meistaranámi. Í stofunni er fjöldinn allur af tækjum og mælitækjum, á borð við sveiflusjár, örtölvur, AD-breytur, iðnaðarróbóta o.s.frv. Stórt safn er til af íhlutum fyrir rásavinnu og góð aðstaða til að setja saman rásir.
Kennarar
Nemendur í raforkuverkfræði njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna á fagsviðinu, tæknimanna og hönnuða innan háskólans, og gestafyrirlesara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur.
Af hverju meistaranám í verkfræði í HR?
- Góður aðgangur að framúrskarandi kennurum og vísindamönnum
- Virk tengsl við atvinnulífið
- Meistaraverkefni oft unnin í samstarfi við fyrirtæki og jafnvel hægt að fá styrki til að vinna þau
- Öflugt starfsnám sem getur verið allt að 12 ECTS
- Skiptinám í boði
- Allt nám kennt í Háskólanum í Reykjavík