Nýsköpunarkeppnir
Nýsköpun - taktu þátt!
Háskólinn er bakhjarl og þátttakandi í mörgum viðburðum og samstarfsverkefnum með fyrirtækjum og stofnunum sem miða að því að efla frumkvöðlaandann og styðja við nýsköpun. Við hvetjum þig til að taka þátt!
Gulleggið
Háskólinn í Reykjavík er einn af eigendum KLAK og bakhjarl Gulleggsins.
Gulleggið er frumkvöðlakeppni á hugmyndastigi sem haldin er af KLAK í upphafi hvers árs. Keppnin er opin öllum og hentar vel sem fyrsta skref fyrir nemendur og starfsfólk sem hefur áhuga á að kynnast nýsköpunarumhverfinu og fá endurgjöf á nýsköpunarhugmyndir sínar.
Gulleggið hefst í janúar með Hugmyndahraðhlaupi fyrir háskólanema og Masterclass-námskeiði þar sem markmiðið er að þróa hugmynd og búa til kynningu á henni sem gerir öllum kleift að taka næstu skref. 10 teymi eru svo valin inn í lokakeppni Gulleggsins sem fer fram í hátíðarsal Grósku.
Snjallræði
Háskólinn í Reykjavík í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akueyri stendur fyrir nýsköpunarhraðlinum Snjallræði en Snjallræði var stofnað af Höfða friðarsetri árið 2018.
Snjallræði er 16 vikna vaxtarrými (e. incubator) sem styður við öflug teymi sem brenna fyrir lausnum á áskorunum samtímans og styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Það geta verið lausnir sem snúa að heilbrigðisþjónustu, velferðartækni, bættu menntakerfi og jafnréttismálum, svo dæmi séu tekin. Vaxtarrýmið er í samstarfi við MITdesignX, og er þungamiðja þess vinnustofur þar sem að sérfræðingar frá MIT koma til landsins og deila þekkingu sinni. Þátttakendur fá aðgang að fræðslu og þjálfun frá innlendum og erlendum sérfræðingum á sviði samfélagsmála og nýsköpunar og fundi með reyndum mentorum.
Snjallræði hentar vel sem stökkpallur fyrir nemendur og starfsfólk sem vilja hafa áhrif á samfélagið með skapandi lausnum.
Masterclass Auðnu tæknitorgs
Háskólinn í Reykjavík er einn af eigendum Auðnu þekkingar- og tæknitorgs.
Auðna stendur reglulega fyrir tveggja til þriggja daga Masterclass í verðmætasköpun í samstarfi við eigendur. Á námskeiðunum koma fram og deila reynslu sinni og þekkingu; vísindafrumkvöðlar, viðskiptaþróunaraðilar, ráðgjafar, sérfræðingar og fjárfestar. Farið er yfir sérstöðu vísindalegrar nýsköpunar og grunnþætti verðmætasköpunar úr rannsóknar niðurstöðum. Einnig er farið yfir hugverkarétt, fjármögnunarleiðir og samninga sem og vörður á leiðinni og þjálfun fyrir kynningu á hugmyndinni.
Masterclass Auðnu hentar vel starfsfólki og doktorsnemendum sem vilja huga að hagnýtingu rannsókna sinna.
Aðrar keppnir
Vitinn
Vitinn er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og hefur verið haldin árlega síðan árið 2015. Keppnin er opin öllum nemendum HR, þvert á deildir í grunnnámi og/eða meistaranámi.
Vitinn er vettvangur þess að; leysa verkefni fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi á þremur dögum, kynna hugmynd fyrir dómnefnd og njóta aðgangs að sérfræðingum úr sjávarútvegi og öðrum geirum atvinnulífsins og fá útrás fyrir sköpunargleðina.
Frekari upplýsingar um Vitann má finna hér.
Forritunarkeppni framhaldsskólanna
Háskólinn í Reykjavík hefur staðið fyrir Forritunarkeppni framhaldsskólanna í fjölmörg ár og hefur ásókn í keppnina aukist ár frá ári enda til mikils að vinna. Forritunarkeppni framhaldsskólanna er ekki eingöngu ætluð þeim sem hafa reynslu af forritun fyrir heldur er hún fyrir alla framhaldsskólanema, jafnt þá sem hafa lært forritun og aðra. Við hvetjum því alla til að koma og prófa. Keppninni er skipt í þrjár deildir, eftir erfiðleikastigi: alpha, beta og delta.
Frekari upplýsingar um forritunarkeppni framhaldsskólanna má finna hér.
Nýsköpunarkeppni grunnskólanna
Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. – 7. bekk grunnskóla. Keppnin var haldin í fyrsta skipti árið 1991 og hefur verið haldin, óslitið síðan. Undirbúningur fer fram í skólum landsins samhliða skólaárinu þar sem nemendur fá kennslu við að þróa verkefni á sínu áhugasviði, allt frá hugmyndum til veruleika. Þetta ferli virkjar sköpunarkraft nemenda í lausnamiðuðum hugsunarhætti og eykur sjálfstraust þeirra og frumkvæði.
Eigandi NKG er Mennta- og menningarmálaráðuneytið en Menntavísindasvið Háskóla Íslands sér um rekstur keppninnar í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, Samband íslenskra sveitarfélaga, Arion banka, Samtök Iðnaðarins, ELKO, IKEA, grunnskóla o.fl. aðila.
Frekari upplýsingar um Nýsköpunarkeppni grunnskólanna má finna hér.