13. september 2023
Lentu í fyrsta sæti frumkvöðlanámskeiðs með þróun stoðtækja fyrir heyrnarlausa
13. september 2023
Lentu í fyrsta sæti frumkvöðlanámskeiðs með þróun stoðtækja fyrir heyrnarlausa
Verðlaunaafhending námskeiðsins Nýsköpun og stofnun fyrirtækja fór fram í Háskólanum í Reykjavík nú í vor. Um er að ræða stærsta námskeiðið sem kennt er í HR ár hvert en um 500 nemendur úr öllum deildum háskólans sitja þetta þriggja vikna námskeið að vori við lok fyrsta eða annars námsárs.
Nýsköpun og stofnun fyrirtækja er frumkvöðlanámskeið en á því vinna nemendur í hópum undir handleiðslu kennara og sérfræðinga að þróun eigin viðskiptahugmyndar. Dómnefnd námskeiðsins er skipuð sigldum fjárfestum, reyndum frumkvöðlum og færustu sérfræðingum úr atvinnulífinu.
Getur numið barnsgrátur og píp reykskynjara
Sigurliðið að þessu sinni var fyrirtækið Acousta en hugmynd þeirra er að þróa stoðtæki fyrir heyrnarlausa til þess að auka lífsgæði þeirra með búnaði sem þekkir hljóð í nærumhverfi og sendir tilkynningar í síma.
Liðsmenn Acousta eru þau Ragnar Andrjesson, nemandi í hátækniverkfræði, Bjarki Dan Andrésson nemandi í rekstrarverkfræði, Elísabet Vilhjálmsdóttir nemandi í byggingartæknifræði, Jón Magnús Jónsson nemandi í viðskiptafræði og Sæþór Berg Ásgeirsson, nemandi í hugbúnaðarverkfræði.
Verkefnið okkar fólst í því að þróa nýtt tæki sem myndi gera hljóð aðgengilegt á heimilinu fyrir heyrnarlausa einstaklinga. Með notkun gervigreindar og hljóðnema, geta notendur fengið tilkynningar um hljóð á heimilum sínum í síma eða snjallúr. Prótótýpan okkar gat sem dæmi numið barnsgrátur, píp í þvottavél, píp í reykskynjara ofl og greint á milli þeirra.
Vildi aðstoða konu sína sem er heyrnarlaus
Hugmyndin varð til því sjálfur hafði ég verið að smíða tæki á mínu heimili til að aðstoða konu mína sem er heyrnarlaus og hafði smíðað tæki sem hristir rúmið ef barnið okkar grætur um nótt og bætt ljósum í önnur tæki sem eingöngu gáfu frá sér hljóð eins og eggjasuðutæki. Flestir geta auðvitað ekki lagað tækin á heimilinu sjálfir svo við þurftum að finna einhverja heildarlausn. Svarið var því að hafa gervigreind á heimilinu sem er í raun eyra þeirra heyrnalausu. Það var ótrúlega skemmtilegt að hafna í fyrsta sæti, sérstaklega eftir að hafa unnið þó nokkra „allnighters“ við að gera prótótýpuna. Liðið okkar var alveg frábært, fjölbreytnin í liðinu gerði okkur kleift að leysa þetta vandamál með því að dreifa því jafnt á alla meðlimi.
Stefnið þið á að halda áfram með verkefnið og láta fyrirtækið verða að veruleika?
Já, það er heldur betur stefnan. Hópurinn ætlar að halda áfram eftir sumarið og allir ætla taka þátt í því að gera þetta að alvöru fyrirtæki.
Nýjustu greinarnar
Sjá allar greinar