13. september 2023
U-beygjan að skjalaskápnum og hið stafræna svarthol
13. september 2023
U-beygjan að skjalaskápnum og hið stafræna svarthol
Nils Kjartan Guðmundsson Narby tók nýverið við starfi skjalastjóra Háskólans í Reykjavík. Hann hefur starfað sem skjalastóri í rúm 20 ár og líkar starfið vel. Í því sameinast tölvuáhugi hans og þörf fyrir að hlutirnir séu í röð og reglu. Að baki skjalastjóranum býr hins vegar annar og ólíkur maður sem hefur reynt fyrir sér í leiklist, æft box og sjálfsvarnaríþróttir og hefur stundað hugleiðslu árum saman. Nils er einnig mikill teáhugamaður og yfir góðum tebolla barst talið m.a. að því hvernig lífið tók u-beygju í átt að skjalaskápnum og hvernig Shakespeare hafi mögulega bjargað honum frá ógæfu.
Ég útskrifaðist af fornmálabraut í MR og er mikill tungumála- og hugvísindamaður. Ætli mér hafi ekki alltaf þótt gaman að læra tungumál og það átti vel við mig en það var ekki fyrr en við lok menntaskólans sem ég þurfti að líta inn á við og spyrja sjálfan mig að því hvað mig langaði að gera. Þá ákvað ég að prófa enskar bókmenntir í HÍ og það var alveg rosalega skemmtilegt. Kafað var ansi djúpt í málvísindi og málsögu og þar kom að góðum notum latínugrunnurinn úr MR. Svo lásum við gríðarlega mikið af bókmenntum og krufðum og í einum kúrsinum lásum við t.d. eitt Shakespeare verk á viku. Í þeim kúrs var einnig sett upp leikritið Draumur á Jónsmessunótt þar sem ég lék veigamikið hlutverk sem veggur. Það hlutverk innifól nokkrar línur en var svona dreggjarnar af leiklistarferlinum því ég lék líka á sviði í menntó í Herranótt og það var hápunktur leiklistarferils míns á sviði. Það vill svo skemmtilega til að þar lék ég á sviði með Bryndísi Björk, sviðsforseta samfélagssviðs HR, og fór með hlutverk yfirmanns á geðsjúkrahúsi. Fór illa fyrir mér í því hlutverki því ég fór svo illa með fólkið sem bjó á spítalanum að þau enduðu á að myrða mig og rista á hol. Þetta var leikritið Sweeney Todd, leikstýrt af Óskari Jónassyni og þýtt af Davíð Þór Jónssyni. Í MR kynntist ég líka tónlistarmanni sem deildi áhuga mínum á að kvikmyndagerð og ég lék í nokkrum stuttmyndum fyrir hann en sá heitir Barði Jóhannsson. Ég var alltaf í hlutverki einvers ógæfumanns svo það hefur ræst ágætlega úr þessu hjá mér og kannski var það þessi Shakespeare braut sem bjargaði mér frá ógæfunni.

Ordning og reda á Þjóðminjasafninu
Talið berst að u-beygjunni frá bóhem menntaskólaáranna að starfi hans sem skjalastjóra í dag en hún kom til í kringum aldamótin þegar mikill skortur var á skjalastjórum. Nils hafði þá öðlast ákveðna tölvukunnáttu sem reyndist vel þegar kom að því að sækja um starf skjalastjóra hjá Reykjavíkurborg.
Þetta er eins og maðurinn sagði þú velur ekkert hvað þú gerir í lífinu, lífið ákveður hvað þú gerir. Það er mjög heimspekilegt en það er satt. Mér finnst gaman að skipuleggja hluti og hafa svolítið ordning og reda og hef einnig alltaf haft gaman að tölvum og tölvukerfum. Mjög fljótlega eftir að ég fór að vinna var ég ráðinn til að taka til upp á Þjóðminjasafni þar sem þurfti að skrá og skipulegggja muni. Þá var verið að vinna við nýtt tölvukerfi, sem var í raun skjalakerfi, og ég lærði á það. Á þessum tíma eru sett ný stjórnsýslu- og upplýsingalög og var mikil vöntun á skjalastjórum. Þessi tölvukunnátta sem ég hafði frá Þjóðminjasafninu var ein krafan þegar ég sótti um starf skjalastjóra hjá Reykjavíkurborg og þeim leist vel á mig þannig að þar hóf ég fyrst formlega störf sem skjalastjóri. Árið 2006 gerðist ég síðan skjalastjóri í HÍ og kom svo hingað yfir í HR í haust. Ég hefði alveg eins getað orðið enskukennari og kannski verð ég það einn daginn.
Skjalaverðir hugsa í árhundruðum
Starf skjalastjóra nær yfir nokkuð marga verkþætti og segir Nils algengt að fólk hugsi ekki um verðmæti ómerkilegra skjala. Sem dæmi megi nefna fjórblöðung um árshátíð HR sem sé síðan bara hent en slík skjöl séu oft skemmtilegustu skjölin þegar fram líða stundir.
Ég segi oft að skjalaverðir hugsa í árhundruðum ekki mánuðum og það er gaman fyrir okkur að gefa sérfræðingunum sem verða að gramsa í skjölunum okkar árið 2200 eitthvað til að vinna með. Sagan er varðveitt í samningum og fundargerðum en það skemmtilega er í veggspjöldunum, matseðlum, árshátíðarplönuum og slíkum. Það er eitthvað svona sem mig langar að skerpa á hér í HR að fanga þessa litlu hluti sem við pælum oft ekkert í. Svo er stærsta áskorunin í þessum heimi í dag þetta stafræna svarthol. Hvernig eigum við að opna öll þessi stafrænu gögn eftir 100 ár þegar forritin sem við erum að nota verði ekki til lengur? Þannig að tæknin er stór áskorun og hvernig við getum geymt þessa stafrænu hluti þannig að þeir týnist ekki. Það er kósí og skemmtilegt að blaða í gömlum skjölum en svartholið verður að passa því það er ekki raunhæft að geyma allt á prenti.
Meðstofnandi teklúbbs HR
Þegar skjalastörfum lýkur á Nils sér ýmis ólík áhugamál. Hann byrjaði að drekka te mjög ungur sem fyrst var þynnt með mjólk og sykri en er í svörtu og sykurlausu í dag. Hann er meðstofnandi nýstofnaðs teklúbbs HR sem hann segir vel við hæfi að stofna á 25 ára starfsafmæli háskólans.
Það var setið um mig við hraðsuðuketilinn einn morguninn og stokkið á mig. Hugmyndin vatt mjög hratt upp á sig og er nú sem betur fer orðin að veruleika.
Nils nýtur þess einnig að drekka viskí og ber hið formlega nafn rektor Viskískólans, 500 manna félags viskíáhugafólks. Önnur áhugamál eru íþróttir og horfir hann bæði á evrópskan og bandarískan fótbolta og er NFL í miklu uppáhaldi auk NBA í körftubolta.
Slagsmál, sund og hugleiðsla
Ég horfi líka svolítið á slagsmál það er mjög skemmtilegt, ég æfði sjálfsvarnaríþróttir lengi og box líka. Skilaðu til mín samningum, það er það eina sem ég segi, þú vilt ekki vita hvað kemur á eftir þessari setningu.
Þetta segir Nils kíminn í bragði og bætir við að hann sé líka sunddómari og hafi hugleitt reglulega í mörg. Hann hyggur nú á að leiða hugleiðslu fyrir starfsfólk HR einu sinni í viku og breiða út fagnaðarerindið um te sem víðast innan veggja skólans.
Nýjustu greinarnar
Sjá allar greinar